top of page

Leiðin að persónulegum vexti: Að umbreyta sársauka í styrk og tilgang

Lífið býður okkur endalaus tækifæri til að vaxa og þróast, en oft eru það erfiðustu augnablikin sem ýta okkur af stað. Það er einmitt sársaukinn sem getur fært okkur þann kraft sem við þurfum til að gera raunverulegar breytingar í lífi okkar – umbreyta því sem brýtur okkur niður í eitthvað sem byggir okkur upp.



Drifkrafturinn liggur oft í sársaukanum

Stundum gerist það ekki fyrr en sársaukinn verður óbærilegur að við finnum okkur tilneydd til að breyta til. Árið 2006 var slíkt ár fyrir mig – sársaukinn hafði vaxið svo að lífið sjálft virtist tilgangslaust, eins og ég væri föst í órofa myrkri þar sem engin leið virtist út. Þetta augnablik markaði þó upphaf mitt að vegferð í átt að heildrænni heilsu og betra lífi.


Þessi vegferð var ekki auðveld; hún var eins og að brjótast út úr köldum, þröngum klefa sem ég hafði vanist svo lengi að hann var orðinn eins og annað skinnið á mér. Sársaukinn varð að bensíni sem knúði mig áfram, kveikti þann innri eld sem ég þurfti til að hætta að lifa á sjálfstýringu og byrja að taka meðvitaðar ákvarðanir. Skref fyrir skref losaði ég mig úr gömlum mynstrum – hegðun og venjum sem ég hafði tileinkað mér úr fortíðinni – og fann aftur tengingu við minn innri kjarna. Smám saman varð sársaukinn að styrk og umbreyttist í verkfæri sem hjálpaði mér að byggja lífið upp að nýju, út frá mínum eigin gildum og styrkleikum.


Kannastu við þessa tilfinningu? Hefur þú einhvern tíma fundið þig á slíkum stað, þar sem innri átök og vanlíðan knýja þig áfram, þrátt fyrir að það sé erfitt? Sársaukinn er erfiður félagi, en hann getur verið drifkrafturinn sem brýtur niður veggi sem halda þér föstum og hjálpar þér að hefja nýja vegferð – að vaxa innan frá og út, sem er hinn eini sanni vöxtur.


„Fortíðin hefur mótað okkur eins og við erum í dag, en í dag getum við tekið ákvörðun um að móta okkar eigin framtíð á nýjum forsendum, eins og við viljum hafa hana.“


Að festast í þægindahringnum

Þegar sársaukinn hefur knúið okkur af stað og við byrjum að vinna markvisst að því að bæta lífsgæði okkar, kemur að þeim tímapunkti að við finnum þægilegan stað – svokallaðan þægindahring. Þetta er svæði þar sem við upplifum öryggi, erum í kunnuglegum aðstæðum og sinnum verkefnum sem við þekkjum og ráðum vel við. Það getur verið hvíld að dvelja þar, en það er líka hættulegt að festa sig þar um of.


Sjálf hef ég upplifað hvernig þessi þægindahringur getur orðið að ljúfu, en þó kæfandi búri. Smám saman fann ég hvernig gamlar venjur byrjuðu að banka upp á, eins og frestunarárátta, fullkomnunarárátta og neikvætt sjálfstal. En sem betur fer eru nýju verkfærin til staðar – verkfæri sem ég get gripið í til að rétta úr kútnum og halda áfram. Þægindin róa mann – en þau deyfa líka innri eldmóðinn og drifkraftinn til að halda áfram. Því lengur sem maður dvelur í þægindahringnum, því meiri hætta er á að staðna, missa tengslin við framtíðarsýnina og hætta að vaxa.


Hvernig líður þér með þinn eigin þægindahring? Eru hlutir í lífi þínu sem þú þráir að breyta en hefur ekki enn tekið skrefið út úr þægindasvæðinu til að ná þeim? Kannski er kominn tími til að leggja af stað á ný, stíga út fyrir öryggið og takast á við nýjar áskoranir sem ýta þér áfram í átt að því lífi sem þú þráir.


Leyfðu þér samt að fagna áfangasigrunum. Að gefa sér tíma til að gleðjast yfir því sem hefur áorkast styrkir sjálfstraustið og trúna á eigin getu. Þessi litlu áfangasigrar eru eins og vegvitar á ferðalagi sem minna þig á að þú ert á réttri leið. En mundu líka að vera vakandi – dveljum ekki of lengi í vellíðan þægindahringsins, því ef við festumst þar hættum við að þroskast og endum jafnvel aftur nálægt þeim stað sem við byrjuðum.


Litlu skrefin sem skila okkur árangri

Það er dýrmætt að hafa framtíðarsýn og stefna að betra lífi, en það er jafn mikilvægt að njóta ferðalagsins sem tekur okkur þangað. Ef við einblínum einungis á lokamarkmiðið getur það litið út fyrir að vera óyfirstíganlegt og látið verkefnið virðast ómögulegt. Þá er hætt við að við gefumst upp.

Lykillinn er stöðugleiki í litlum, daglegum breytingum – litlu skrefin sem smám saman byggja okkur upp og færa okkur nær framtíðarsýninni. Hver lítill sigur, hversu smávægilegur sem hann kann að virðast, er mikilvægt skref fram á við. Fagnaðu þessum litlu áföngum og leyfðu sjálfum þér að njóta þeirra. Þeir eru áminning um að þótt ferðalagið sé langt, þá hefurðu styrkinn til að halda áfram og byggja þína eigin framtíð. Lykillinn felst í að njóta ferðalagsins.

 
 
 

Comments


Viltu vita meira?
Hafðu samband fyrir nánari upplýsingar eða tímabókanir

ACC_edited_edited.png
Screenshot 2024-12-11 220532.jpg

Takk fyrir að hafa samband

Hugarþol ehf.

kt: 441023-0220

kolbrun@hugarthol.is

Sími: 8608956

  • Linkedin
  • Facebook
  • Instagram
bottom of page