Yoga Nidra: Að stíga ölduna
- Kolbrún Magnúsdóttir
- Nov 14
- 8 min read

Að finna aftur tilganginn
Í tuttugu ár hef ég lagt mikla áherslu á sjálfsrækt í mínu lífi. Ég hef farið frá því að sjá engan tilgang með því að lifa, alltaf með heilaþoku, enga orku og tilfinningalega fjarveru, yfir í að hafa skýran tilgang, tilhlökkun, gleði og orku til að fara í gegnum hvern dag. Þetta er þó ekki þannig að ég eigi aldrei slæman dag, þeir koma ennþá. Þegar þeir koma legg ég áherslu á að gefa því sem er að gerast rými til að vera án þess að streitast á móti eða reyna að breyta. Ég æfi mig í því að vera áhorfandi, vitni að því sem er að gerast án þess endilega að þurfa að skilja það eða skilgreina. Yoga nidra er eitt af þeim mikilvægu verkfærum sem hafa hjálpað mér á þessari vegferð sem gerði það að verkum að ég fór að læra það til að fá fleiri verkfæri í kistuna til að stiðja við aðra á sinni vegferð.
Að viðurkenna að lífið er bæði ljós og mirkur er grunnurinn að heildrænni nálgun á heilsu og vellíðan. Þetta snýst um að samþykkja að lífið er allskonar, góðir dagar og erfiðir dagar, gleði og sorg, líkamleg vellíðan og vanlíðan. Í þessari nálgun leitum við jafnvægis í huga, líkama og sál, því aðeins þegar þetta þrennt dansar saman í sátt getum við upplifað raunverulegt heilbrigði.
Hvað er Yoga Nidra og hvernig hjálpar það?
Yoga Nidra, oft kallað „hinn jógíski svefn“, er hugleiðslutækni þar sem líkaminn hvílist á meðan hugurinn er vakandi. Yoga Nidra leiðir þig inn í djúpt slökunarástand þar sem þú hvílir eins og í svefni en heldur fullri meðvitund sem jafnast á við 3. Klst svefn. Í þessu ástandi kemst ró á líkamsstarfsemina, andadráttur hægist og taugakerfið fær tækifæri til að róast og jafna sig.
Innri sturta og áhrif á hormón
Yoga Nidra virkar eins og innri sturta, það losar um reynslu og tilfinningar sem við höfum haldið í og skapar rými til að vaxa. Rannsóknir sýna að Yoga Nidra hjálpar til við að minnka framleiðslu kortisóls, streituhormóns, og eykur framleiðslu góðra taugaboðefna eins og serótóníns og GABA. Serótónín er „hamingjuhormón“ líkamans sem hefur áhrif á svefn, skap og matarlyst og GABA slakar á taugakerfinu. Með Yoga Nidra getur þú bætt jafnvægi hormóna og komið á betri ró í líkamanum.
Yoga Nidra hefur einnig áhrif á heilabylgjur. Á meðan á iðkuninni stendur færist heilinn úr beta-ástandi (vakandi en streituvaldandi) yfir í alfa-og síðan í theta-og delta-bylgjur, sem tengjast djúpri slökun, sköpunargáfu og endurheimt. Þetta hjálpar líkamanum að hreinsa út uppsafnaða streitu og styrkja ónæmiskerfið.
Hugræn og tilfinningaleg áhrif
Með Yoga Nidra róum við kerfið okkar, komum á betra jafnvægi á taugakerfið, náum tökum á hugsunum okkar og verðum áhorfendur að þeim frekar en að vera þær. Þetta gefur okkur rými til að velja hvernig við bregðumst við. Við förum að sjá að við erum hvorki hugsanir okkar né tilfinningar. Yoga Nidra hjálpar okkur að sleppa tökunum á ósjálfráðum mynstrum og venjum sem halda okkur föstum, styrkir getu okkar til að taka meðvitaðar ákvarðanir og veitir okkur styrk til að sitja með sjálfum okkur í ró og fullri vitund.
Rannsóknir sýna að Yoga Nidra tímar geta dregið úr streitu, kvíða, þunglyndi og bætt lífsánægju, aukið meðvitund og leitt til dýpri hormónajafnvægis; þeir fela í sér minna kortisólvakningarviðbragð á morgnana. Regluleg iðkun yfir tvo mánuði getur þannig breytt daglegu kortisólmynstri, sem tengist bættri heilsu og vellíðan.
Tengingin við okkar sanna sjálf
Yoga Nidra er leið að okkar sanna sjálfi. Þegar við tengjumst innri kjarna okkar skiljum við að hamingja er ekki háð ytri aðstæðum eða efnislegum gæðum heldur sprettur hún innan frá. Innra frelsi okkar leiðir okkur til uppgötvunar á þeim möguleikum sem við búum yfir. Því betra jafnvægi sem ríkir í huga okkar, því meiri frið og vellíðan upplifum við í líkama og sál.
Streita
Streita er náttúrulegt viðbragð líkamans við álagi. Í litlu magni er streita gagnleg og hjálpar okkur að bregðast hratt við, en þegar streitan verður viðvarandi getur hún skaðað heilsu okkar. Ytra áreiti er orðið svo mikið að við erum mörg hver komin á sjálfstýringu í að uppfylla ytri væntingar, vinnan, framinn, börnin, íþróttir, skutla/sækja, heimilið o.sfrv. Hægt og rólega aftengjumst við okkur sjálfum, við uppfyllum ekki lengur okkar þarfir og væntingar heldur gleymum okkur í að uppfylla væntingar annarra og ytri aðstæðna. Þar með hleðst streitan upp í líkamanum okkar án þess að við tökum eftir því fyrr en hún fer allt í einu að hafa áhrif á heilsuna.
Þegar við gefum okkur ekki tíma til að slaka á og finna innra jafnvægi safnast streitan upp. Hún getur valdið vöðvaspennu, svefntruflunum, þreytu, orkuleka, dregið úr viðbragðsgetu okkar og aukið líkur á sjúkdómum. Á sama tíma hefur streita áhrif á hugann, hún rýrir einbeitingu, veldur heilaþoku, eykur kvíða og tilhneigingu til neikvæðra hugsana. Líkaminn framleiðir meira af streituhormóninu kortisól og dregur úr framleiðslu vellíðunarhormóna eins og serótóníns, sem hefur áhrif á skap, svefn og líðan.
Áhrif streitu á heilann
Langvarandi streita hefur áhrif á heilann. Amygdala, litill kjarni í heilanum sem geymir viðbragðsmynstur okkar, verður virkur og við getum orðið ofurnæm fyrir viðvörunum. Framheilinn, sá hluti heilans sem sér um dómgreind og ákvarðanatöku, verður veikari undir stöðugu álagi, sem gerir okkur erfiðara fyrir að greina rétt frá röngu og taka yfirvegaðar ákvarðanir. Rannsóknir sýna að þegar streita hefur safnast upp yfir langan tíma minnka heilasvæði vegna aukinnar kortisólframleiðslu og við upplifum okkur smá, óörugg og ekki nógu góð.
Hugur, líkami og sál
Hugurinn gegnir lykilhlutverki, hugsanir, tilfinningar, athygli og sjálfsmynd móta hversdagslíf okkar. Að vera í meðvitund um hugsanir okkar merkir að við viðurkennum og vinnum með:
Sjálfsvitund: að vera vakandi fyrir eigin hugsunum og tilfinningum.
Streituviðbrögð: hvernig hugurinn bregst við álagi, kvíða og tilfinningum.
Endurheimt: Slökun og íhugun sem gefa huganum rými til að jafna sig.
Líkaminn er okkar daglega farartæki í lífinu, hann þarf athygli, hreyfingu, næringu og endurheimt. En hann er líka myndrænn tjáningarmiðill huga og sálar: hvernig við hugsum og finnum endurspeglast í líkamanum. Með því að hlusta á líkama okkar og hreyfa hann á meðvitaðan hátt styrkjum við einnig huga og sál.
Sál eða andlegur þáttur fjallar um okkar dýpsta kjarna. Tilgang, tengsl og vitund um eitthvað umfram daglegar þarfir. Að næra sálina merkir að við gefum tíma og næringu fyrir:
Tengingu við okkur sjálf, við aðra og við náttúruna,
Sköpun, tjáningu og list, hugleiðslu, tónheilun, yoga
Samþættingu orku og innsæis, að finna okkar eigin takt og stefnu í lífinu.
Hugur, líkami og sál er grundvöllur heildræns heilbrigðis. Þegar við sinnum öllum þessum þáttum með athygli getum við aukið vellíðan okkar og innra jafnvægi.
Tilfinningar er orka sem vill flæða
Við erum uppspretta rýmis þar sem hlutir koma og fara. Við erum vitni að því sem gerist. leyfum því að gerast, tökum á móti því og sleppum því síðan. Ef við festum okkur í tilfinningum okkar eða reynum að hunsa þær safnast þær upp. Með tímanum geta þær birst sem líkamleg og andleg einkenni og haft neikvæð áhrif á heilsuna. Allar tilfinningar eiga rétt á sér. Það er mikilvægt að gefa þeim rými í stað þess að hunsa þær eða þvinga fram jákvæðar tilfinningar. Tilfinningarnar þurfa að fá að koma, vera og fara. Þegar við hunsum þær erum við í fjarveru frá okkur sjálfum; við vinnum ekki úr þeim heldur þjöppum þeim niður sem leiðir til þess að þær koma í bakið á okkur síðar.
Ég leyfi tilfinningum og upplifunum að koma og fara án þess að láta þær trufla mig eða tæma orku mína. Ég er í samhljómi við líf mitt og skapa jafnvægi með meðvitund og flæði. Ég er sú sem ég er sama hvernig mér líður. Ég reyni ekki að þykjast vera eitthvað annað heldur gef ég mínum tilfinningum og upplifun rými til að koma, vera og fara. Tilfinningar eru orka, ef við leyfum þeim að flæða tengjumst við betur okkar eigin kjarna. Ef við reynum að halda í tilfinningarnar myndast stífla, þetta á líka við um góðu tilfinningarnar. Ef við ætlum að halda í þær myndast togstreita. Við viljum alltaf meira af því góða og forðumst það sem er óþægilegt. En allt hefur sinn tíma, tilgang og ástæðu. Þú getur ímyndað þér að þú sért heiðblár himinn, tilfinningarnar eins og skýin sem koma, staldra við og fara.
Orka okkar og vitund leita alltaf leiða til að endurtengjast. Þegar við náum að róa hugann leitar orkan upp í stað þess að leka út. Yoga Nidra er andleg sturta, innri djúphreinsun. Það sem kemur til þín í Nidra tíma er komið til að fara. Það losnar um reynslu og tilfinningar sem við höfum haldið í; það getur valdið bæði líkamlegum og andlegum einkennum meðan það losnar en því fylgir mikill léttir og rými til að vaxa.
Sjálfsskoðun og venjur
Á þessari vegferð er mikilvægt að spyrja: Hvað er mér ætlað að læra af þessu? Það er auðvelt að festast í hlutverki fórnarlambsins, en raunverulegur vöxtur á sér stað þegar við tökum ábyrgð á eigin lífi. Við getum valið að reyna að breyta ytri aðstæðum eða viðbrögðum okkar, spurningin er hvor leiðin mun skila betri árangri?
Með hverri endurtekningu á hegðun verður hún sterkari, hún verður að vana og þú ert komin á sjálfstýringu. Allt sem þú setur athygli þína á verður sterkara og á endanum festir það rætur innra með þér. Til að sleppa tökunum þurfum við að sitja með tilfinningum, ekki gefa þeim orku, ekki berjast á móti eða næra með nokkrum hætti. Vertu rannsakandi og leyfðu þér að upplifa tilfinninguna án þess að bregðast við henni. Mér ber engin skylda til að bregðast við, ég er ekki tilfinningar mínar; ég leyfi mér að finna þær, sitja með þeim og sleppi svo tökunum.
Þetta er ekki ég heldur það sem ég geri og það er eitthvað sem ég get breytt. Gefðu þér tíma áður en þú bregst við. Þú getur ekki alltaf mætt með sama hráefnið og ætlast til að fá aðra niðurstöðu. Þú getur ekki breytt fortíðinni en þú getur breytt því sem gerist næst. Ef þú lifir út frá óuppgerðri fortíð er nú þegar búið að skilgreina framtíðina. Það sem kemur í veg fyrir að við séum við sjálf er þegar við berum okkur saman, viljum vera eitthvað annað, upplifum að við séum ekki nóg og finnst við þurfa að vera eitthvað annað og meira.
Raunverulegur vöxtur á sér stað þegar þú ert meðvituð/aður um sjálfa/n þig og leiðréttir þína eigin hegðun í stað þess að benda á aðra. Með því að taka ábyrgð á eigin lífi virkjar þú vald og kraft sem býr innra með þér. Spyrðu þig: Eru venjur mínar góðar eða slæmar? Stjórnar vaninn mér eða er ég leikstjórnandinn? Þegar vaninn stýrir hvað við gerum er hann orðinn viðhengi í okkar lífi.
Serótónín hefur mikil áhrif á hversu mikla stjórn við höfum; ef uppsöfnuð streita er orðin mikil í líkama okkar dregst úr framleiðslu serótóníns, sem hefur áhrif á viðbrögð okkar. Þá getum við þróað með okkur fjarveru í eigin lífi og verið líklegri til að tileinka okkur slæmar venjur. Til að komast úr fjarverunni er mikilvægt að finna rót vandans og takast á við það á heilbrigðan hátt.
Heilinn og áhrif Yoga Nidra
Heilinn er kraftaverk sem breytist með upplifun. Amygdala er staður í heilanum sem geymir triggerana okkar. Því sterkari sem framheilinn er, því betri ákvarðanir tökum við og eigum auðveldara með að vega og meta aðstæður. Þegar streita hefur safnast upp yfir langan tíma minnka ákveðin heilasvæði vegna aukinnar kortisólframleiðslu. Við upplifum okkur lítil, finnst við ekki þess virði og upplifum óöryggi. Ef við geymum það sem gerðist of lengi eða söfnum því upp þá mun líkaminn og taugakerfið gefa frá sér einkenni: líkamlega verki, síþreytu, heilaþoku og fleira. Yoga Nidra hjálpar okkur að draga úr þessu ástandi hægt og rólega, dregur úr kortisólframleiðslu og eykur framleiðslu á serótóníni. Við vitum að það er byrjað að losna um þegar eitthvað hættir að triggera okkur og við byrjum að finna tilfinningar sem við vorum hætt að finna.
Að samþykkja flæðið og treysta ferlinu
Heildræn nálgun á heilsu og vellíðan felst í að gefa okkur tíma til að hlusta á líkama okkar, taka eftir hugsunum okkar og næra sálina. Yoga Nidra er verkfæri sem hjálpar okkur að tengjast innra jafnvægi, losa upp streitu og endurheimta orku. Með því að æfa okkur í að vera vitni að tilfinningum okkar án þess að halda í þær eða ýta þeim burt öðlumst við frelsi.
Lífið hefur sitt flæði með öllu sem það hefur upp á að bjóða og við þurfum að vera tilbúin að stíga ölduna. Þannig eflumst við, vöxum og nærum okkar eigið sjálf.
Yoga Nidra er leið til að tengjast innri kjarna okkar og uppgötva okkar sanna sjálf, áminning um að friður, gleði og vellíðan býr innra með okkur öllum og að með reglulegri iðkun getum við losað um uppsafnaða streitu og tilfinningalega byrði og fundið aftur ljós innra okkar.
Samþykktu það sem er – slepptu tökunum á því sem var – hafðu trú á því sem mun verða.



Comments