top of page

Að velja hugrekki umfram það sem er þægilegt og skemmtilegt

Writer's picture: Kolbrún MagnúsdóttirKolbrún Magnúsdóttir

Updated: Dec 5, 2024



Hugrekki: Lykillinn að vexti og breytingum

Hefur þú hugrekki til að stíga út fyrir þægindahringinn og láta drauma þína verða að veruleika? Ertu tilbúin/n að horfast í augu við óttann sem fylgir því að fara út fyrir rammann – út fyrir það sem þú þekkir og kannt – og prófa eitthvað nýtt? Það er einmitt á þessum óþekkta stað sem ný tækifæri verða til.


Þegar við ákveðum að stíga inn í óttann og velja hugrekki umfram öryggi og þægindi, fara hlutirnir að gerast. Draumar hætta að vera bara draumar og verða að raunhæfri fratíðarsýn. Með hverju litlu skrefi í átt að okkar framtíðarsýn öðlumst við meiri trú á eigin getu. Við erum öll fær um meira en við gefum okkur kredit fyrir – en við megum ekki láta óttann við mistök eða óvissu halda aftur af okkur.


Af hverju erum við hrædd við að stíga út fyrir þægindarammann?

Þægindahringurinn táknar öryggi. Þegar við erum þar vitum við hvað við erum að gera og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Lífið verður „auto pilot“– einfalt og fyrirsjáanlegt. Þrátt fyrir að þetta virðist þægilegt, fylgir því hættan á stöðnun.


Ótti við mistök er einn helsti þátturinn sem heldur okkur innan ramma vanans. Við höfum tilhneigingu til að rifja upp fyrri mistök, dæma okkur fyrir það sem fór úrskeiðis, og telja okkur trú um að við höfum ekki það sem til þarf. Þessi skorthugsun (e. scarcity mindset) dregur úr sjálfstrausti okkar og sannfærir okkur um að við séum ekki fær um að láta drauma okkar rætast.


En hvað ef við hættum að horfa á mistök sem eitthvað neikvætt og tökum þeim í staðinn sem dýrmætan lærdóm? Þegar við skoðum fyrri reynslu með opnum huga og drögum af henni verkfæri fyrir framtíðina, eflumst við og höfum meira til að vinna með í næstu áskorunum. Mistök eru hluti af lærdómsferlinu – og lífið sjálft býður okkur upp á að vaxa og þróast, ef við sköpum rými til þess.


Hugrekki til að gera mistök og læra af þeim

Að stíga inn í óttann krefst hugrekkis. Það krefst þess að við viðurkennum að við gætum gert mistök – og leyfum okkur að vera ófullkomin. Mistök þýða ekki að við séum óhæf. Þau eru bara merki um að við erum að reyna eitthvað nýtt og stíga út fyrir vanann. Þeir sem búa yfir vaxtarhugsun (e. growth mindset) líta á mistök sem hluta af ferlinu, ekki endalok þess.


Hugarfarið okkar er því stærsti áhrifavaldurinn á það hvort við náum árangri eða ekki. Þegar við trúum því að við getum lært og vaxið, byggjum við upp hugrekki til að takast á við nýjar áskoranir. Eins og vöðvar stækka við áreynslu, stækkar hugurinn þegar við ögrum honum með nýjum verkefnum.


Að brjóta niður vegferðina í skref

Það er ekki alltaf auðvelt að velja hugrekki. Það að fara út fyrir þægindarammann getur verið yfirþyrmandi ef við horfum bara á stóru myndina. Leyndarmálið er að brjóta markmiðin niður í smærri, viðráðanleg skref og einbeita sér að einu skrefi í einu.

Hugleiddu þetta:


  • Hver er staðan þín í dag? Hvaða þekkingu og færni býrð þú nú þegar yfir?

  • Hvert viltu stefna? Hvað þarftu að bæta við þig til að ná þangað?

  • Hvað getur þú gert í dag? Hvert lítið skref sem þú tekur núna færir þig nær framtíðarsýn þinni.


Þegar við einbeitum okkur að skrefunum frekar en lokaáfangastaðnum, verður vegferðin spennandi lærdómsferðalag í stað þess að vera yfirþyrmandi verkefni.


Að treysta á sjálfan sig

Hugrekki þýðir líka að treysta á sjálfan sig – að standa með eigin gildum og skoðunum, jafnvel þegar aðrir efast um okkur. Þegar við þorum að vera við sjálf, óháð því hvort við „föllum inn í hópinn, “ finnum við frelsi. Að vera hluti af hóp þarf ekki að þýða að við breytum okkur eða látum af þeim eiginleikum sem gera okkur einstök. Þvert á móti felst hugrekki í því að vera samþykkt/ur fyrir það hver við erum.


Þegar við treystum á okkur sjálf hverfa áhyggjur af áliti annarra smám saman. Þá eflist trúin á eigin getu – og sú trú skapar kraftinn sem þarf til að halda áfram, þrátt fyrir áskoranir.


Breytingar krefjast hugrekkis

Breytingar eru ekki auðveldar. Þær kalla á hugrekki til að takast á við óttann sem fylgir því að vaxa, yfirstíga hindranir og læra nýjar leiðir. Þær krefjast líka þess að við sleppum takinu á skorthugsun og veljum í staðinn vaxtarhugsun – að trúa því að við getum vaxið og náð markmiðum okkar með þrautseigju og einbeitingu.


Þegar við stígum út fyrir þægindahringinn, gerum við ekki aðeins eitthvað nýtt – við gerum líka eitthvað sem eflir okkur sem manneskjur. Þetta er ferli sem felur í sér ótta, en líka tækifæri.


Lokaorð: Hugrekki er lykillinn

Lífið er sífelldur lærdómur og vöxtur, svo lengi sem við hættum ekki að reyna. Hugrekki snýst ekki um að vera óttalaus – það snýst um að taka meðvitaða ákvörðun um að stíga inn í óttann, vita að mistök geta gerst, en velja samt að halda áfram.

Veldu hugrekki fram yfir það sem er þægilegt og skemmtilegt. Það er þar sem þú munt finna  ný tækifæri, nýja styrkleika og nýjar leiðir til að láta drauma þína verða að veruleika.


21 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page