top of page

Þitt innra ferðalag: Hugrekkið til að breyta og vaxa

Writer: Kolbrún MagnúsdóttirKolbrún Magnúsdóttir


Að taka skrefið: Ferðalag breytinga

Ég sit við fjallsbrúnina í hægindastól með kaffi og krossant, slaka á og hugsa um hvort ég ætti að stíga skrefið í átt að breytingum. Ég dreg andann djúpt á meðan ég dáist að útsýninu og læt mig dreyma um lífið sem ég þrái. Hvað mun breytast þegar ég tek fyrsta skrefið? Hvernig mun það hafa áhrif á líf mitt? Hvar stend ég nú, og hvað hefur þegar breyst?


Það er auðvelt að láta sig dreyma en ef við gerum ekkert þá breytist ekkert.


Að hoppa út í óvissuna

Allt í einu finn ég hugrekkið styrkjast og sjálfstraustið vaxa. Léttur vindur ýtir mér fram á við, út af brúninni. Ég svíf í óvissunni og skynja frelsið. Útsýnið sem ég hafði áður dáðst að úr fjarlægð er nú allt í kringum mig. Ég sé tækifærin sem áður voru falin í skugganum. Allt sem ég þarf að gera er að velja hvað ég ætla að grípa fyrst.


Ég er rannsakandi og forvitin. Ég sé næstu skref skýrast og stekk á tækifærin sem birtast. Boltinn byrjar að rúlla, verkefnin taka á sig mynd og nýjar hugmyndir kvikna. Sambönd breytast, sum eflast og styrkjast, önnur enda, hafa lokið sínum tilgangi. Það er erfitt, en ég skil að allt er eins og það á að vera.


Að axla ábyrgð

Ég tek ábyrgð á mínu lífi, sama hvað fortíðin geymir. Ég er þakklát fyrir hana, því hún hefur kennt mér svo margt og mótað mig. En ég vil ekki að fortíðin stýri framtíð minni, svo ég tek meðvitaða ákvörðun um breytingu.


Ég byrja á mikilvægasta sambandinu, því sem ég á við sjálfa mig. Ég rannsaka hver ég er, fjarlægi það sem þjónar mér ekki lengur og gef rými fyrir það sem hjálpar mér að móta framtíðina sem ég þrái. Lag fyrir lag afhjúpast kjarninn minn, ég kynnist mér smám saman og samband mitt við sjálfa mig verður sterkara.


Ábyrgðin kemur með skýrleika. Mörk mín verða skýr, hlutirnir gerast áreynslulaust og innsæi mitt, sem lengi hefur legið í dvala, vaknar. Skilaboð streyma til mín, leiðbeina mér og sýna mér næstu skref. Stundum á ég erfitt með svefn, því ég er svo upptekin af nýjum hugmyndum og innsýn sem flæðir inn.


Að endurforrita sig

Allt byrjar með draumi. En þegar ég trúi draumnum í hjarta mínu, þá byrjar eitthvað að hreyfast. Það er óþægilegt í fyrstu, jafnvel mjög óþægilegt. Að afeitra líkama, huga og sál frá gömlum mynstrum og venjum er eins og að strauja harðadiskinn og endurforrita hann.


Við höfum alltaf val. Við getum valið að taka ábyrgð eða vera fórnarlömb. Við getum valið að halda áfram á sjálfsstýringu og vorkenna okkur yfir aðstæðum, eða við getum tekið stjórnina, gert breytingar og rutt veginn fram á við. Þetta krefst þolinmæði, seiglu, aga og hugrekkis. Það krefst þess að við horfumst í augu við okkar eigin bresti.


Við þurfum stundum að sleppa tökum á því sem við höfum í dag til að skapa rými fyrir það sem við viljum fá í staðinn. Það er ekki auðvelt, en það er nauðsynlegt.


Áskoranir og vöxtur

Vegferðin er ekki slétt og fögur. Hún er full af áskorunum, sársauka og lærdómi. Stundum eru það tvö skref áfram og þrjú til baka. En smám saman lærum við að forðast sömu mistökin og taka betri ákvarðanir, það er þá sem við byrjum að vaxa.


Sársauki er oft vísbending um að við séum á réttri leið. Hann er krafturinn sem knýr okkur áfram til breytinga. Við þurfum aðeins að treysta því að við komumst í gegnum hann. Hinum megin við sársaukann er ávinningurinn, vellíðanin, sigurtilfinningin, skynjunin á eigin styrk.


Gefðu þér tíma til að fagna árangrinum þínum. En ertu sátt/ur hér? Eða viltu halda áfram?


Þegar hugrekkið er prófað

Þegar við tökum næsta skref verður það aðeins auðveldara, en samt krefjandi. Hver áskorun verður minna sársaukafull en engu að síður áskorun. Þetta er stöðugt ferli: breytingr, vöxtur, aðlögun, og aftur breytingar.


Allt í einu vaknar spurning: hver er þessi nýja manneskja sem ég er að verða? Hvernig líður mér með hana? Ég stend á nýjum stað og veltir fyrir mér hvert næsta skref sé.


Ný sýn, nýr veruleiki

Nú hef ég rými, skýrleika og ró í huganum. Breytingarnar hefjast þegar við hreinsum til. Þegar ég er tilbúin kemur leiðsögnin. Innsæi mitt er opið, ég hef verkfæri til að hlusta og næmni til að taka eftir merkjum í umhverfinu. Ég finn nýjar tilfinningar, sumar sem ég hef ekki upplifað lengi, eða jafnvel aldrei.


Lífið byrjar að raðast upp fyrir framan mig. En ef ég geri ekkert, breytist ekkert.


Að velja að vera ég sjálf/ur

Nú reynir á hugrekkið. Þori ég að taka skrefið og halda áfram, eða ætla ég að stoppa hér og leyfa öllu að fara aftur í sama farið?


Egoið mætir til leiks: „Ertu viss? Af hverju ekki bara að halda áfram eins og áður? Það er þægilegt, öruggt. Af hverju að synda á móti straumnum? Af hverju að vera þú sjálf/ur? Er ekki betra að falla inn í hópinn?“


En er það ekki meira virði að vera samþykktur fyrir það hver maður er, frekar en að breyta sér fyrir aðra?


Ég finn togstreituna á milli gömlu mín og nýju mín sem er í mótun. Egoið, sem knúið er af ótta, fer aldrei alveg en ég get tamið það. Því betur sem ég tengist sjálfri mér, því meira rými fæ ég til að stjórna.


Í daglegu lífi getur óttinn haldið aftur af okkur, en við getum lært að stjórna honum, treysta og leyft lífinu að flæða.


Að skapa framtíðina

Sjáðu fyrir þér framtíðina eins og þú vilt hafa hana.

Ímyndaðu þér að hún sé nú þegar orðin að veruleika. Lofaðu þér að lifa eins og hún sé komin. Trúðu því í hjarta þínu að þú eigir hana skilið og að allt geti orðið að veruleika.


Þá byrjarðu að sjá næstu skref skýrast. Kannski rætast allir draumar þínir, kannski ekki. Kannski breytast þeir og þróast. Það skiptir ekki öllu máli, heldur að þú sért opin/n, forvitin/n og rannsakandi á þessari vegferð.


Ég er þakklát fyrir fortíðina, því hún hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég er þakklát fyrir núið, því hér og nú hef ég vald til að velja hvað þjónar mér og hvað ekki. Ég er þakklát fyrir framtíðina, því hún er óskrifað blað sem ég móta sjálf.


Ást og kærleikur

Þitt innra ferðalag: Hugrekkið til að breyta og vaxa

 
 
 

Comentários


Viltu vita meira?
Hafðu samband fyrir nánari upplýsingar eða tímabókanir

ACC_edited_edited.png
Screenshot 2024-12-11 220532.jpg

Takk fyrir að hafa samband

Hugarþol ehf.

kt: 441023-0220

kolbrun@hugarthol.is

Sími: 8608956

  • Linkedin
  • Facebook
  • Instagram
bottom of page